Select Page

12.9.2017 / Dagur íslenskrar náttúru er á laugardag, 16. september. Dagurinn verður almennur fræsöfnunardagur og landsmenn eru hvattir til að safna fræi af trjám, einkum birki, og stuðla þannig að útbreiðslu skóglendis á landinu. Mikið fræ er á birki um allt land þetta haustið og upplagt tækifæri að safna fræi, einkum af ungum, beinvöxnum trjám. Áður en fólk fer út að safna er það hvatt til að skoða bæklinginn BIRKI Fræsöfnun og sáning, en þar er að finna ágætar leiðbeiningar.

Stefnt er að því að laugardagurinn 16. september verði helgaður fræsöfnun á vegum skógræktarfélaga um land allt í samræmi við ályktun þess efnis sem samþykkt var nýlega á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands á Stórutjörnum í Ljósavatnsskarði. Er almenningur einnig hvattur til að nýta daginn til söfnunar. Verkefnið er þó ekki bundið við þennan eina dag. Ef hvassviðri eða rigning spillir ekki alvarlega ætti að vera hægt að safna fræi birkitrjáa fram yfir miðjan október.

Ef veður verður hagstætt, sem útlit er fyrir, er ætlunin að virkja sem flesta til að fara út og safna fræi og eru skógræktarfélögin í landinu hvött til að hafa forystu um fræsöfnunarverkefni hvert á sínu svæði. Í Morgunblaðinu í fyrr í vikunni var rætt við Hrein Óskarsson, sviðstjóra samhæfingarsviðs Skógræktarinnar, sem mælir með að einkum sé safnað fræi af ungum, beinvöxnum birkiplöntum því þær séu bestu arfberarnir. „Okkur er í mun að fá sem mest af fræjum af þeim og vonandi leggst nokkuð til, því það er mjög gott fræár í birki á landinu öllu,“ segir Hreinn.

Fræsöfnunin er samstarfsverkefni Landgræðslunnar, Skógræktarinnar og skógræktarfélaga. Þessir aðilar hafa, ýmist saman eða hver í sínu lagi, átt þátt í mörgum vel heppnuðum náttúruverndarverkefnum í tímans rás.

Alls staðar þar sem birki vex má tína fræ, reklarnir, sem aðrir nefna köngla, eru stórir og fallegir þetta haustið. Heimagarðar eru nærtækastir fyrir flesta en á höfuðborgarsvæðinu má tiltaka Öskjuhlíð, Elliðaárdal, Heiðmörk og svæðið við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði – að viðbættum almenningsgörðum um allan bæ. Úti á landi eru svo margir frábærir söfnunarstaðir, svo sem Þjórsárdalur, Þórsmörk, Fnjóskadalur og Fljótsdalshérað.

Birkifræið sem safnast í haust verður nýtt til sáningar um allt land. Líklega fer stærstur hluti fræsins til Hekluskóga á Suðurlandi og verður dreift á hentugum svæðum þar strax í haust. Alls spannar Hekluskógasvæðið um100 þúsund hektara í Þjórsárdal, Landsveit, Landmannaafrétti og á Rangárvöllum og er ætlunin að græða það svæði upp með birkiskógum og sjálfsáningu.

 

 

 

Skip to content