Select Page

10.11.2016 / Landgræðslan tekur þátt í nýju sam-evrópsku þróunarverkefni um lífmassa-framleiðslu og aðra úrvinnslu einærrar lúpínu (Lupinus mutabilis Sweet), en það hófst formlega í byrjun október. Evrópusambandið hefur veitt fimm milljón evra styrk til verkefnisins, sem hefur fengið nafnið LIBBIO. Að verkefninu koma fjórtán aðilar í átta löndum. Nýsköpunarmiðstöð Íslands stýrir verkefninu.

libbio_logoEvrópusambandið hefur sett sér það markmið að draga úr vægi jarðolíu í hagkerfinu og vera betur sjálfu sér nægt um lífafurðir. Með LIBBIO-verkefninu vill Evrópusambandið auka lífmassaframleiðslu af rýru landi og styrkja þar með lífhagkerfið án þess að nota verðmætt ræktarland.  Á Íslandi er mikið af mjög rýru landi sem gæti hentað til ræktunar þessarar tegundar.

Lupinus mutabilis er frá Suður-Ameríku og hefur verið notuð til ræktunar fóðurs og matar í Andesfjöllunum um aldir. Nýlegar athuganir sýna að hún vex vel á meginlandi Evrópu og talið líklegt að einhver yrki hennar geti vaxið vel á Íslandi. Þessi tegund er einær ólíkt alaskalúpinu sem er fjölær. Suður-Ameríska lúpínan virðist ekki vera ágeng á meginlandi Evrópu og eru því litlar líkur á að hún verði það á Íslandi, en það verður kannað sérstaklega.

Í Libbio-verkefninu verður skoðað hvernig vinna má olíu, prótein og fóður úr henni, eða nota til orkuframleiðslu. Á Íslandi verður áhersla lögð á að kanna möguleika hennar til vaxtar á rýru landi með það fyrir augum að nýta hana til uppgræðslu og/eða fóðurframleiðslu. Verkefnið er styrkt af samstarfsneti evrópska lífmassaiðnaðarins, innan H2020 rannsóknaráætlunar Evrópusambandsins samkvæmt verkefnissamningi nr. 720726.

logo-bridge2020 Embl-H2020-droite-18-10-2013 lagad_BBI

Smelltu hér til að komast inn á vef verkefnisins

Skip to content