1.2.2017 / Nýlega kom út skýrslan Lífrænn úrgangur til landgræðslu – Tækifæri. Lífrænn úrgangur hefur verið notaður til uppgræðslu víða um land þar sem það hefur þótt henta m.t.t. kostnaðar og umhverfislegra þátta. En almennt má segja að lífrænn úrgangur hafi ekki verið notaður á markvissan hátt nema af bændum sem nota húsdýraáburð á tún og önnur ræktarlönd.
Lífrænn úrgangur er ekki besti áburður sem völ er á hvað varðar styrk næringarefna eða kostnaðar við nýtingu, en er mikilvægur efniviður sem ætti að nýta miklu meira til uppgræðslu og landbóta en gert er. Í skýrslunni er lögð áhersla á þau tækifæri sem felast í nýtingu lífræns úrgangs bæði sem efnivið til landgræðslu en einnig sem umhverfisvæna aðgerð til að minnka mengun og sóun verðmæta. Í nefndinni voru Anne Bau (formaður), Garðar Þorfinnsson, Magnús H. Jóhannsson og Sigþrúður Jónsdóttir.