Select Page

12.12.2016 / Verkefnið ERMOND hófst í byrjun árs 2014 og lýkur nú um áramótin. Markmið þess er að stuðla að því að endurheimt vistkerfa sé í auknum mæli beitt til þess að draga úr náttúruvá. Verkefnið er styrkt af formennskuáætlun Íslands í Norðurlandaráði, auk tveggja annarra sjóða sem heyra undir Norðurlandaráð. Þátttakendur í verkefninu koma frá öllum Norðurlöndunum og Færeyjum. Verkefninu er stýrt af Landgræðslu ríkisins.

Frá fundinum í Kaupmannahöfn.

Frá fundinum í Kaupmannahöfn.

Lokafundur verkefnisins var haldinn í Kaupmannahöfn dagana 23.-24. nóvember. Þrír starfsmenn Landgræðslunnar sóttu fundinn. Þetta voru þau Anna María Ágústsdóttir, Kristín Svavarsdóttir og Guðmundur Halldórsson. Auk þess sóttu fundinn níu aðrir þátttakendur í verkefninu.

Aðaltilgangur fundarins var að vinna að yfirlitsgrein þar sem meginniðurstöður verkefnisins eru dregnar saman. Fyrir lágu voru fyrstu drög að henni sem tekin voru saman af Önnu Maríu Ágústsdóttur, Anne Tolvanen og Guðmundi Halldórssyni. Að almennum umræðum loknum skiptust fundarmenn í hópa sem unnu að mismunandi þáttum greinarinnar. Þeirri vinnu lauk um hádegi síðari fundardag og þá var staða handrits tekin saman og næstu skref ákveðin.

Að þessu loknu fór Guðmundur yfir stöðu verkefnis og þær afurðir sem fyrirhugaðar eru. Ljóst er að öllum meginmarkmiðum verkefnisins verður náð og hafa tímaáætlanir staðist að mestu. Auk yfirlitsgreinarinnar verða teknar saman greinar með niðurstöðum frá einstökum þáttum verkefnisins og skýrslur til þeirra sjóða sem styrktu verkefnið.

Sjá heimasíðu Ermond

Skip to content