Select Page

1.6.2017 / Þriðjudaginn 30. maí varði Guðrún Stefánsdóttir meistararitgerð sína í landgræðslufræðum frá Auðlinda- og umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands. Ritgerðin fjallar um framvindu og uppbyggingu vistkerfa á melgresissvæðum. Melgresi er lykiltegund í landgræðslu á Íslandi og því mikill fengur að þessari rannsókn. Helstu niðurstöður voru þær að hefðbundnar mæliaðferðir vanmætu stórlega kolefnisbindingu í mellöndum.

Í verkefninu rannsakaði Guðrún meðal annars uppsöfnun kolefnis (C) og niturs (N) í tveimur um 40 ára aldursröðum melhóla; annars vegar í hólum sem mynduðust af sjálfsáðum melplöntum í Surtsey en hins vegar í misgömlum melsáningum í Leirdal, sandsléttu á milli Búrfells og Heklu, þar sem Landgræðsla ríkisins hefur sáð melgresi til að hefta ösku í kjölfar Heklugosa. Niðurstöður Guðrúnar sýna meðal annars mun meiri uppsöfnun kolefnis í Leirdal en Surtsey, bæði í rótum og jarðvegi.

Á báðum rannsóknarsvæðunum var meginaukningin á kolefnisforða vistkerfisins fyrir neðan 30 cm. Þetta sýnir að 30 cm stöðluð sýnatökudýpt sem notuð er í landsúttektum til að mæla kolefnisbindingu við landgræðslu mælir aðeins hluta kolefnisforðans í slíkum vistkerfum. Mun meira nitur safnaðist árlega upp í melhólunum í Surtsey en fellur á þá með ákomu. Sennilegasta skýringin á því er sú að hinar löngu rætur melgresisins teygja sig út í ógrónu svæðin milli hólanna og flytja nitur inn í þá. Melgresishólarnir er því lykilsvæði fyrir frekari jarðvegsmyndun og framvindu á sandsvæðum.

Aðalleiðbeinandi Guðrúnar var Ása L. Aradóttir, prófessor við LBHÍ. Meðleiðbeinendur voru Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við LBHÍ og Guðmundur Halldórsson, rannsóknastjóri hjá Landgræðslu ríkisins. Prófdómari var Brynhildur Bjarnadóttir, lektor við Háskólann á Akureyri.

Nánari upplýsingar má nálgast hér.

Skip to content