Select Page

Melgresi er stórgert hávaxið gras sem vex á strandsvæðum um allt land. Það vex einnig inn til landsins á Suðurlandi og norðan Vatnajökuls til stranda. Kjörlendi þess eru foksandar, sandorpin hraun og fjörur. Það þrífst best í hæfilegu sandfoki og myndar melhóla. Melgresi er dæmigerð landnemajurt sem þolir illa samkeppni og víkur því auðveldlega fyrir öðrum gróðri, þegar áfok hefur verið stöðvað. Melgresi hefur verið notað til heftingar sandfoks frá stofnun Sandgræðslu Íslands 1907, síðar Landgræðsla ríkisins.

Notkunarsvið: Sandsvæði þar sem engar aðrar plöntur þrífast – frá sjávarmáli og upp í 1000 mys. Stundum einnig notað í moldar- og leirflög sem eru þó ekki kjörsvæði þess. Ekki ætti að sá melfræi í land þar sem annar gróður þrífst þar sem melgresið lætur strax undan í samkeppni við hann. Verður að sá í alfriðað land þar sem það er mjög viðkvæmt fyrir beit á fyrstu tveimur árunum.

Markmið notkunar: Hefta og binda foksand og búa í haginn fyrir annan gróður.

Sáning: Fræið verður að fella niður í jarðveginn a.m.k. 2-4 cm. Dreifsáning á yfirborð gefst mjög illa.

Sáðtími: Um leið og frost fer úr jörðu, en haustsáning skilar sér einnig vel.

Sáðmagn: Hæfilegur fræskammtur er um 70kg af húðuðu fræi á hektara (20kg af óhúðuðu fræi). Við minni svæði og erfiðar aðstæður gefst mjög vel að gróðursetja melgresisplöntur.

Sáðblöndur: Melgresi er sjaldnast blandað saman við aðrar tegundur þar sem það er lélegt í samkeppni við annan gróður. Þó hefur blanda af melgresi og beringspunti komið vel út á Norðausturlandi. Prófað hefur verið að sá lúpínu með melgresi, en reynslan af slíku er takmörkuð.

Áburðargjöf: 200 kg/ha af tvígildum áburði 26-14 með raðsáningu, en 250-300 kg/ha ef áburði er dreift ofan á sáðbeðinn eftir á.

Eftirmeðferð: Misjafnt er milli svæða hversu lengi þarf að bera á melsáningar. Brýnt er að bera á áburð, lífrænan eða tilbúinn, árið eftir sáningu 200-250 kg/ha en síðan ætti þess ekki að þurfa. Það fer þó allt eftir landsvæðum, því þar sem úrkoma er mikil, tapast meira af næringarefnum en þar sem úrkoma er minni. Fylgjast skal með sáningunni næstu 4 árin og bera á 200 kg/ha ef vöxtur er lítill.

Fræþroski: Melgresi þroskar fræ um land allt á bilinu 20. ágúst – 20. september eftir árferði og staðháttum. Fræ er þroskað þegar það byrjar að losna í axinu.

Áhugavert ítarefni á ensku og íslensku
Rannsóknir á melgresi við Hálslón
Melgresið endurvakið
 Íslenska melgresið
Greining erfðamengja í fjöllitna meltegundum (Leymus) með frumuerfðafræðilegum aðferðum
 Leymus arenarius. Characteristics and uses of a dune-building grass
Wide-hybrids between wheat and lymegrass: breeding and agricultural potential

 

 

 

Skip to content