8. júlí 2015 8:01. | Í vikunni sem leið voru gróðursettar birki- og lerkiplöntur í tilraunareit á Hólasandi. Markmið tilraunarinnar er að sjá hvernig molta frá Moltu ehf. í Eyjafjarðarsveit hentar sem nesti fyrir skógarplöntur í mjög rýru landi. Ef tilraunin gefst vel gæti verið komin hentug aðferð til að gefa berum auðnum líf og koma þar af stað gróðurframvindu. Þetta er tilraunaverkefni Skógræktarinnar, Landgræðslunnar og Moltu ehf.
Skógrækt ríkisins, Landgræðsla ríkisins, samtökin Húsgull og fleiri hafa unnið í aldarfjórðung að uppgræðslu örfoka svæðis á Hólasandi norðan Mývatnssveitar. Þetta svæði var fyrrum algróið og þegar uppgræðslan hófst mundu elstu menn eftir því frá sínum yngri árum að þar stóðu enn rofabörð. Stórviðrasamt er á Hólasandi og roföflin áttu auðvelt með að útrýma gróðri og eyða jarðvegi þegar rofið var á annað borð byrjað. Undraverður árangur hefur náðst á Hólasandi með hjálp lúpínu. Birki vex vel í lúpínubreiðunum og lerki sem gróðursett hefur verið í beran sandinn þrífst víða mjög vel og græðir upp landið. Á Hólasandi vetrar snemma og landið er yfirleitt undir snjó allan veturinn.
Molta ehf. í Eyjafjarðarsveit jarðgerir lífrænan úrgang frá heimilum og fyrirtækjum, mest af Eyjafjarðarsvæðinu. Þar á meðal er kjöt- og fiskúrgangur frá sláturhúsum og fiskvinnslufyrirtækjum. Forsvarsmönnum fyrirtækisins er mikið í mun að reyna afurð sína við ýmiss konar ræktun og síðla vetrar kom upp sú hugmynd að setja út tilraun þar sem athugað væri hvernig moltan frá fyrirtækinu myndi reynast sem nesti fyrir skógarplöntur í mjög rýru landi. Efnt var til samstarfs Skógræktarinnar, Landgræðslunnar og Moltu ehf. og ákveðið að finna hentugan skika á Hólasandi fyrir tilraunina. Brynjar Skúlason, sérfræðingur á Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, skipulagði tilraunina í samráði við Daða Lange, héraðsfulltrúa Landgræðslunnar á Norðausturlandi.
Landgræðsluskógar lögðu til 1.000 plöntur til verkefnisins, 500 lerkiplöntur af kvæminu Luumäki og jafnmargar birkiplöntur af kvæminu Bolholt. Í tilraunina fóru rúmlega 800 plöntur en afgangurinn var gróðursettur til hliðar.
Haldið var á Hólasand þriðjudaginn 30. júní og með Brynjari og Daða í för voru þau Ólöf Jósefsdóttir, framkvæmdastjóri Moltu ehf., og Pétur Halldórsson. Fremur svalt var í veðri og norðaustan kaldi en að mestu þurrt og góðar aðstæður til gróðursetningar. Stikað var út svæði fyrir tilraunina um miðbik Hólasands, skammt vestan við þjóðveginn, Kísilveginn svokallaða. Tilrauninni var skipt upp í nokkra hópa og tíu plöntur gróðursettar í hvern hóp.
Í haust verður litið á plönturnar til að sjá hvernig þær hafa lifað af sumarið og svo verður ástand þeirra skráð aftur haustið 2016 og lokaúttekt gerð 2018. Ef vel reynist að nota moltu við landgræðsluskógrækt með þessum hætti gæti þarna verið komin öflug aðferð til að gefa berum auðnum líf og koma þar af stað gróðurframvindu. Meðal annars mætti gróðursetja í „eyjar” með þessari aðferð líkt og gert er í Hekluskógum.