31.05.2016 / Nýlega var haldið námskeið fyrir kennara undir yfirskriftinni jarðvegur, landlæsi, vistheimt og sjálfbærni í skólastarfi. Að námskeiðinu stóðu Landgræðsla ríkisins og Menntavísindasvið Háskóla Íslands í samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands og Landvernd. Námskeiðið var styrkt af Endurmenntunarsjóði grunnskóla. Námskeiðið var haldið í kjölfar þess að Sameinuðu Þjóðirnar lýstu árið 2015 Ár jarðvegs.
Markmiðið var að auka faglega þekkingu og færni þátttakenda í jarðvegsvernd, vistlæsi og sjálfbærni sem þátt í kennslustarfi. Leiðbeinendur voru Ása L. Aradóttir og Ólafur Arnalds, prófessorar við Landbúnaðarháskóla Íslands og höfundar bókarinnar Að lesa og lækna landið, Guðrún Schmidt, fræðslufulltrúi Landgræðslu ríkisins, Rannveig Magnúsdóttir, verkefnastjóri hjá Landvernd og Svava Pétursdóttir, lektor við Menntavísindasvið HÍ. Tuttugu kennarar sóttu námskeiðið sem stóð í einn dag og var haldið á Keldnaholti í Reykjavík.
Um heim allan eru jarðvegsvernd og sjálfbær nýting brýn viðfangsefni. Með tilkomu nýrrar aðalnámskrár á Íslandi eru gerðar auknar kröfur til kennara um að flétta menntun til sjálfbærni inn í kennsluna. Á námskeiðinu var bæði lögð áhersla á fræðilegan bakgrunn sem og að efla getu kennara í að skipuleggja og stýra verklegri kennslu, jafnt í skólastofunni sem og úti í náttúrunni.
Í myndbandi, sem er á svæði Landgræðslunnar á YouTube, er sagt frá námskeiðinu og rætt við þátttakendur. Sjá myndbandið hér.