Select Page

14.6.2016 / Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið að setja á fót nefnd sem falið verður að kanna forsendur fyrir stofnun þjóðgarðs innan svokallaðrar miðhálendislínu. Nefndin á að draga saman helstu sjónarmið og fyrirliggjandi þekkingu er varðar nýtingu og vernd miðhálendisins, með langtímahagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.

Miðhálendi Ísland býr yfir einstökum náttúruverðmætum. Þau verðmæti eru samofin menningu, sögu og sjálfsmynd þjóðarinnar, auk þess að skipta miklu og vaxandi hlutverki í efnahagslegu tilliti. Þessi landsvæði eru að mestu þjóðlendur þar sem íslenska ríkið er eigandi lands og hlunninda sem ekki eru háð einkaeignarrétti.

Fyrirsjáanlegt er að álag aukist á svæðinu með aukinni ásókn ferðamanna og því er mikilvægt að kanna hvaða stjórntæki séu ákjósanlegust til að stýra álagi til lengri tíma.

Í nefndinni munu sitja fulltrúar frá forsætisráðuneyti, Samtökum ferðaþjónustunnar, Bændasamtökum Íslands, Samorku, umhverfisverndarsamtökum, Samtökum útivistarfélaga og Sambandi íslenskra sveitarfélaga auk fulltrúa frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Þá munu sérfræðingar frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarði starfa með nefndinni auk þess sem Skipulagsstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands veita nefndinni ráðgjöf og upplýsingar.

Gert er ráð fyrir að nefndin skili greinargerð til ráðherra fyrir 1. nóvember 2016.

Skip to content