Select Page
18.12.2018 / Föstudaginn 14. desember sl. urðu merk tímamót í landgræðslustarfinu. Þann dag voru samþykkt frá Alþingi ný lög um landgræðslu. Með nýjum lögum um landgræðslu eru felld úr gildi lög um sama málefni, nr. 17/1965 sem eru rúmlega 50 ára gömul. Með nýjum lögum er styrktur mjög grundvöllur landgræðslustarfsins. Nýjar áskoranir blasa við en skerpt er á markmiðum landgræðslustarfsins sem felst m.a. í að vernda, endurheimta og bæta auðlindir þjóðarinnar sem fólgnar eru í gróðri og jarðvegi. Þá er það framfaraskref stigið að gert er ráð fyrir að öll nýting lands skuli vera með sjálfbærum hætti. Áætlanir um landgræðslu skal gera til langs tíma, hvort tveggja á lands- og svæðisvísu. Landgræðslan skal styðja og hvetja til landgræðsluverkefna, sem og að vernda, endurheimta og efla vistkerfi. Verkefni tengd vörnum gegn landbroti, sem verið hafa í sérstökum lögum nr. 91/2002, eru tekin upp í nýjum lögum. Þá eru ákvæði um umsjón og meðferð landgræðslusvæða, hvort sem þau lönd eru í eigu ríkisins eða einkaaðila, sem og ákvæði um gjaldtöku, þvingunar- og sektarúrræði. Síðast skal það hér nefnt að nafni stofnunarinnar er breytt og heyrir nú Landgræðsla ríkisins sögunni til. Þess í stað er nú starfrækt stofnun með nafnið Landgræðslan.
Skip to content