9.1.2018 / Forgangsverkefni í formennskuáætlun Íslands 2014-2016 í Norrænu ráðherranefndinni var áhersla á Norræna lífhagkerfið (NordBio). Sem hluta af þessu verkefni fékk Landgræðsla ríkisins styrk til að kanna hagkvæmni þess að nýta lífrænan úrgang til landgræðslu. Nú er komin út skýrsla um þetta verk. Skýrslan ber að sjálfsögðu heitið Lífrænn úrgangur til landgræðslu. Höfundur er Magnús H. Jóhannsson, sviðsstjóri þróunarsviðs Landgræðslunnar.
Styrkirnir urðu þrír, og í grunninn var verkefnið því þrískipt: 1) að gera kostnaðargreiningu á nýtingu lífræns úrgangs og tengja við hentug landgræðslusvæði, 2) að taka saman grunn upplýsingar sem sveitarfélög gætu nýtt sér við koma á nýtingu á seyru til uppgræðslu og 3) að kanna leiðir til þess að efna til samstarfs sveitarfélaga um nýtingu á seyru til uppgræðslu.
Síðasti hluti verkefnisins er skemmst á veg kominn þar sem verkefni af þessu tagi þurfa talsvert langa meðgöngu og undirbúning, lengri en rúmast innan þess tímaramma sem lagt var upp með í upphafi. Niðurstöður verkefnisins varpa ljósi á tækifærin sem felast í aukinni notkun lífræns úrgangs til landgræðslu, kostnaðinn við hana, nauðsynleg tæki, tól og innviði auk mögulegs samstarfs sveitarfélaga um þessi mál.
Að auki eru gerðir útreikningar á fosfórjöfnuði Íslands. Útreikningar á fosfórjöfnuði landsins skipta máli til að setja verðmæti fosfórs í hagrænt íslenskt samhengi sem og alþjóðlegt. Sýnt er fram á hversu mikill fosfór er fluttur inn, hvernig honum reiðir af í íslenska lífhagkerfinu og hversu mikils virði það er að meðhöndla hann á sjálfbæran hátt.