Select Page

11. júní 2015 12:49. | RECARE vinnufundurLandgræðslan er þátttakandi í evrópsku rannsóknarverkefni – RECARE – um hvernig auka megi jarðvegsvernd og bæta jarðvegsgæði gegnum öflugt samstarf með hagsmunaaðilum. Alls taka 27 Evrópulönd þátt í verkefninu og þar af leggja 17 þeirra til rannsóknasvæði; Ísland þar á meðal. Íslenska rannsóknin fer fram á svæði innan Hekluskógaverkefnisins og nýtur góðs af fjölbreyttum uppgræðsluaðferðum og sterku samfélagsneti þess verkefnis.

Á dögunum var haldinn vinnufundur á vegum RECARE verkefnisins í Gunnarsholti þar sem gestir frá 10 löndum báru saman bækur sínar og samræmdu vinnuaðferðir innan verkefnisins með því að rýna í íslenska rannsóknarsvæðið.

Að auki fóru þau um Hekluskógasvæðið og skoðuðu mismunandi uppgræðsluaðferðir og ræddu við hagsmunaaðila innan svæðisins. Þeim fannst sérstaklega áhugavert að heyra af elju allra þeirra sjálfboðaliða sem koma að landbótavinnu og stunda hana af væntumþykju fyrir landinu umfram allt. RECARE verkefnið hófst í nóvember árið 2013 og er til 5 ára.

Allar nánari upplýsingar um verkefnið má fá hjá Jóhanni Þórssyni verkefnisstjóra (johann@frettir.land.is) eða Þórunni Pétursdóttur (thorunnp@frettir.land.is).

 

……………………..

Hér fyrir neðan er mun eldri frétt um sama málefni. Í hana var vitnað í fréttinni frá því í júní 2015.

RECARE – leiðir til að vernda jarðveg

2. apríl 2014 8:32. |

Upplýsingaveita verkefnisins RECARE hefur verið opnuð (http://www.recare-hub.eu/). Henni er ætlað að miðla upplýsingum um þær ógnir sem steðja að jarðvegi í Evrópu. RECARE verkefnið leiðir saman teymi vísindamanna til að efla jarðvegsvernd í Evrópu, allt frá Íslandi til Kýpur.

Vaxandi hluti mannkyns glímir við dvínandi fæðuöryggi, flóð og þurrka ásamt mengun sem ógnar framleiðni í landbúnaði og umhverfinu. Lausnin á þessum alvarlegu vandamálum kann að felast í jarðveginum.

Jarðvegur er undirstaða matvælaframleiðslu, auk þess að hreinsa vatn sem menn og plöntur nýta. Hringrás og varðveisla næringarefna í jarðvegi er undirstaða alls lífs. Jarðvegur miðlar vatni og dregur þannig úr þurrkum og flóðum. Hann varðveitir kolefni og hamlar þannig gegn hnattrænum loftslagsbreytingum.

Aðgerðir manna og ósjálfbær landnýting hafa leitt til þess að ýmsar hættur steðja að jarðvegsauðlindinni. Þar má nefna jarðvegseyðingu, saltmengun, þjöppun jarðvegs, jarðvegsmengun, tap lífræns efnis og líffræðilegs fjölbreytileika. Brýnt er að vernda jarðveg til að tryggja að margvíslegir ferlar og vistþjónusta jarðvegs skerðist ekki.

Vegna mikilvægis jarðvegsauðlindarinnar hefur Evrópusambandið veitt styrk til fimm ára alþjóðlegs rannsóknarverkefnis þar sem leitað verður leiða til að draga úr jarðvegseyðingu og endurheimta jarðveg í Evrópu.

Verkefnið RECARE mun leiða saman teymi af fjölþættum fræðasviðum til að að meta þær ógnir sem nú steðja að jarðvegsauðlindinni og finna leiðir til að hindra frekari jarðvegseyðingu í Evrópu, allt frá Íslandi til Kýpur. Vísindamenn frá 27 mismunandi stofnunum, þar á meðal Landgræðslu ríkisins, munu deila upplýsingum um leiðir til að mæta helstu ógnum sem steðja að jarðvegsauðlindinni.

Verkefnisstjórinn, Coen Ritsema, sem er prófessor við Jarðvegseðlisfræði- og landnýtingardeild Háskólans í Wageningen, segir: “það sem er spennandi við þetta verkefni er að þar er verið að rannsaka jarðveg um alla Evrópu. RECARE innifelur sautján mismunandi lykilrannsóknir á jarðvegsógnum við mismunandi umhverfisskilyrði vítt og breitt um Evrópu. Þar verður leitað að lausnum með samþættingu vísinda og staðbundinnar þekkingar”.

Miðlun upplýsinga er lykillinn að því að hámarka gildi rannsókna. Því mun niðurstöðum verkefnisins jafnóðum verða miðlað um sérstaka RECARE upplýsingaveitu. Sökum þess hversu ástand umhverfisins er alvarlegt er brýnt að niðurstöðum rannsókna sé deilt meðal vísindamanna og einnig til þeirra sem vinna með og leiðbeina um jarðveg. Markmiðið er að hámarka virkni jarðvegs, öllum til góða.

Meiri upplýsingar um verkefnið má finna á: http://www.recare-project.eu/, eða á upplýsingaveitu RECARE: http://www.recare-hub.eu. Upplýsingar eru einnig á: Twitter @RECARE_EU and Vimeohttp://vimeo.com/channels/RECARE

 

 

Skip to content