Select Page

29. janúar 2016  Í gær var undirritaður samstarfssamningur Landgræðslunnar og nokkurra sveitarfélaga á Suðurlandi um nýtingu á seyru til landgræðslu. Sveitarfélögin sem koma að þessum samningi eru Hrunamannahreppur, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Flóahreppur.
Tilgangurinn er að nýta seyru sem til fellur í sveitarfélögunum til landgræðslu. Efnið verður notað innan landgræðslugirðingar á Hrunamannaafrétti. Einnig geta önnur svæði í sveitarfélögunum komið til greina eftir samkomlagi aðila ef þau henta og uppfylla að öðru leyti skilyrði til nýtingar á seyru. Samningurinn er til átta ára.

Í samningum segir m.a. að sveitarfélögin safni seyru úr sveitarfélögum í samræmi við samninga við losunaraðila. Þar með talin er seyra frá þéttbýli, dreifbýli, sumarhúsum og eftir atvikum atvinnurekstri. Samkvæmt samningum munu sveitarfélögin aðallega vinna þetta þannig að seyran er kölkuð á söfnunarstað og meðhöndluð skv. reglugerð um meðhöndlun seyru nr.799/1999. Frá söfnunarstað verður seyran flutt árlega á uppgræðslusvæði og dreift.

Í samningnum er fjallað um dreifingu seyrunnar, en ef hún er meðhöndluð á þann hátt sem segir hér að framan, þá verður henni dreift á yfirborð uppgræðslusvæða. Snemma í september ár hvert munu samningsaðilar leggja mat á framvindu gróðurs á uppgræðslusvæðunum. Landgræðslan mun síðan fyrir lok nóvembermánaðar árin 2016, 2017, 2019 og 2022 skila sérstökum skýrslum um ástand gróðurs og framvindu á uppgræðslusvæðunum. Landgræðslan leggur til ráðgjöf og fræ til sáningar á uppgræðslusvæðunum telji hún þess þörf.

Skip to content