Select Page

21. júní 2015 20:32. | Hópur erlendra sendiherra gagnvart Íslandi, staðgenglar sendiherra og makar, sem komu til landsins að taka þátt í þjóðhátíðarhöldum, fóru ásamt erlendum sendiherrum búsettum hérlendis og starfsfólki utanríkisráðuneytisins í skoðunarferð um Suðurland 18. júní. Áhersla var einkum lögð á uppbyggingar- og landgræðslustarf, sögu þess og árangur. Hópurinn kom í Gunnarsholt um hádegi og fékk þar kynningu á starfi Landgræðslunnar og Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Ferðinni lauk um kvöldið með heimsókn í Sólheima og með kvöldverði þar. Hópurinn taldi um 120 manns.

Sveinn Runólfsson, landgræðslustjóri, ávarpaði sendiherrana og sagði meðal annars: „Jarðvegsvernd á Íslandi á rætur í einhverjum elstu lögum heimsins um verndun landkosta. Þrekvirki hefur verið unnið síðan landgræðslustarfið hófst árið 1907. Mörgum byggðarlögum hefur verið forðað frá því að leggjast í eyði vegna jarðvegseyðingar og stór landsvæði eru að gróa. Risavaxið verkefni er þó enn fyrir höndum við stöðvun jarðvegseyðingar og gróður er víða í litlu samræmi við raunveruleg gróðurskilyrði og landnýtingarþarfir þjóðarinnar. Jarðvegseyðing er því enn sem fyrr eitt brýnasta umhverfismál þjóðarinnar.

Jarðvegur hefur verið að myndast og þróast frá örófi alda og á þeim tíma tekið á sig ótal mismunandi myndir. Mannkynssagan er í raun saga baráttu gegn eyðingu jarðvegs. Mestur hluti jarðvegseyðingar í heiminum, bæði fyrr og nú, tengist landnýtingu. Manninum hefur ekki verið gefið að lifa í sátt við náttúruna, hann hefur eytt skógum, ofbeitt jörðina og brotið viðkvæmt land til ræktunar.

Til að ná árangri hér á landi er áríðandi að þjóðin standi einhuga að baki varðveislu og endurheimt landkosta. Til þess þarf annars vegar að viðurkenna vandann sem þarf að leysa og hins vegar sátt um leiðir að því marki að gera Ísland sem byggilegast fyrir alla þegna þjóðarinnar.

Jarðvegsverndarvandamál eru yfirleitt flókin og dýr úrlausnar og vandinn er að miklu leyti uppsafnaður; arfur kynslóðanna. Það er því skiljanlegt að bændum og stjórnmálamönnum sem öðrum, hvar sem er í heiminum, hafi miðað hægt að öðlast skilning á því siðferðilega forgangsverkefni að takast á við eyðingaröflin með öllum tiltækum ráðum. Slík viðurkenning er ein meginforsenda vistfræðilegra umbóta.”

Skip to content