»Með nýju lögunum fáum við svigrúm til þess að setja meiri kraft í uppbyggingu og yfirsýn verður skýrari, segir Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra í samtali við Morgunblaðið í dag. Skömmu fyrir páska samþykkti Alþingi ný lög um langatímaáætlun við uppbyggingu ferðamannastaða. Lagasetning þessi hefur lengi verið í undirbúningi. Tengist hún þeirri uppbyggingu sem talin er nauðsynleg vegna þeirrar miklu aukningar sem orðið hefur í komu ferðamanna til landsins síðustu ár.
Tvær stofnanir vinni saman
Í samtalinu við Sigrúnu kemur fram að nú verið að styrkja samstarf milli Umhverfisstofnunar og Landgræðslu ríkisins um úrbætur á ýmsum ferðamannastöðum. »Þetta eru ólíkar stofnanir en sameiginlegir snertifletir eru margir,« segir Sigrún.
»Umhverfisstofnun er öðru fremur stjórnsýslustofnun sem einnig hefur umsjón með náttúru og vernd á ýmsum friðlýstum svæðum. Landgræðslan er hins vegar í ýmsum framkvæmdum. Starfsmenn beggja stofnana búa svo að þekkingu sem mikilvægt er að nýta til að takast á við áskoranir vegna álags á náttúruna og þörf á framkvæmdum á ferðamannastöðum. Þetta viljum við samtvinna og starfsfólk stofnananna tveggja er líka áhugasamt um það. Bæði Landgræðslan og Umhverfisstofnun eru með starfsstöðvar víða úti um land. Ef samstarf getur eflt þær er slíkt mikill ávinningur.«
Sigrún segir að á næstu mánuðum muni hún sem ráðherra, samkvæmt nýlega samþykktum lögum, leggja fram aðgerðaáætlun um uppbygginguna á ferðamannastöðum. /Ofangreint er ættað úr Morgunblaðinu í dag, 4. apríl.