Select Page

2.1.2018 / Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fór yfir farinn veg í áramótaávarpi sínu og minnti á að gott væri að nýta gamlárskvöld til þess að líta um öxl og horfa fram á veg, þakka fyrir það góða og setja sér markmið um það sem gera má betur. Þá minntist forsætisráðherra þess að á komandi ári munu landsmenn fagna merkum viðburði í sögu íslensku þjóðarinnar, hundrað ára afmæli fullveldis Íslands.

Í áramótaávarpi sínu sagði Katrín meðal annars: „Stærsta verkefni alþjóðasamfélagsins um þessar mundir eru loftslagsbreytingar sem munu öllu skipta um hvernig framtíð mannkynsins verður næstu áratugi og aldir.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Þetta er verkefni af því tagi að þar má ekki hugsa í þjóðum eða í átökum samfélagshópa heldur verður þar að koma til sameiginlegt átak alls mannkyns sem berst fyrir eigin tilvist. Mannkynið hefur varla staðið andspænis viðlíka verkefni og það krefst nýrra lausna þar sem þjóðríkið getur ekki verið í öndvegi heldur samhugur okkar þvert á landamæri.

Ísland er ekki stórveldi en við viljum taka þátt í þessu átaki og í því ljósi verður að skilja hið metnaðarfulla markmið um að Ísland verði kolefnishlutlaust samfélag ekki seinna en 2040. Hér er á ferð gríðarmikið verkefni og markmiðið næst ekki nema með samstilltu átaki allra í samfélaginu; stjórnvalda, sveitarfélaga, atvinnulífs, verkalýðshreyfingar, háskólasamfélags og almennings í landinu um annars vegar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem mun kalla á verulegar samfélagsbreytingar og hins vegar að auka kolefnisbindingu með breyttri landnotkun. Í þessu verkefni geta líka falist tækifæri en verkefnið sjálft verður ekki umflúið; loftslagsbreytingar eru stærsta ógn heimsbyggðarinnar og þar þurfum við öll að leggja okkar af mörkum; stór og smá. Það eru hin smáu eyríki á Kyrrahafi sem voru hvað sterkustu raddirnar þegar samkomulag náðist í París 2015 og við Íslendingar getum og verðum að leggja okkar af mörkum í þessu verkefni enda eru breytingarnar fyrir framan augun á okkur í hopandi jöklum og súrnandi sjó.“

Skip to content