Select Page
„Sauðfjárrækt á Íslandi er sérstæð að því leyti að tilkostnaður vegna langrar vetrarfóðrunar er hér meiri en gerist víðast hvar annars staðar í heiminum. Hraður vöxtur á hinum stuttu sumrum er beinlínis skilyrði þess að búin geti skilað góðum arði. Meiri kröfur eru líklega gerðar til vaxtarhraða lamba hér en í nokkru öðru landi og því skiptir miklu máli að beit sé hagað þannig að vaxtargeta lambanna sé nýtt til hins ítrasta.“ Þannig hljóðar upphaf á grein eftir Andrés Arnalds. Heiti greinarinnar er Sumarbeit sauðfjár og hún birtist í ársriti Ræktunarfélags Norðurlands árið 1986. Sauðfjárbændur og áhugamenn um sauðfjárrækt eru hvattir til að lesa greinina sem hefur staðist vel tímans tönn. Sjá greinina hér.

„Mestallar afurðir, og þar með tekjur, í sauðfjárræktinni myndast af beitargróðri. Hins vegar má ætla að skipan sumarbeitarinnar sé veikasti hlekkurinn í framleiðslukeðjunni hjá æði stórum hópi bænda. Ágæt vetrarfóðrun, sem almennt tíðkast, og góður árangur í kynbótum nýtist víða ekki sem skyldi vegna ónógra eða lélegra sumarhaga eða lítillar stjórnar á beit. Með úrbótum á því sviði gætu afurðir áa verði mun meiri en þær eru nú.

Afurðir og arðsemi sauðfjárræktar ákvarðast fyrst og fremst af frjósemi fjárins og fallþunga lamba. Fallþunginn ræðst mjög af magni og næringargildi þess gróuðrs sem féð nær að innbyrða yfir sumarið. Samspil þroskaferils plantna og rýmis í högum ráða e.t.v. mestu um vaxtarhraðann en unnt er að hafa veruleg áhrif á báða þessa þætti með skipulagi beitarinnar.

Umbætur í sumarfóðruninni, eins og kalla má beitina, eru ein vísasta leiðin til að auka arðsemi sauðfjárræktar hér á landi, rétt eins og í öðrum löndum. Of lítil áhersla hefur hins vegar verið lögð á skipulag sumarbeitarinnar. Í grein þessari er fjallað um hluta af hinum fræðilega grunni sem auknar afurðir verða að byggjast á. Fjallað er um samhengi gróðurgæða, átgetu, fóðurnýtingar og vaxtar og helstu þætti sem hafa áhrif á gæði gróðurs. Einnig er rætt um þau áhrif sem magn beitargróðurs hefur á át og vöxt og hinar miklu breytingar sem verða á fóðurgæðum, afurðum og beitaráhrifum frá vori til hausts. Að lokum er vikið að beitarhagfræði og beitarkerfum.“

Sjá greinina hér.

 

Skip to content