Select Page

26.10.2016 / Í dag var undirritaður samningur um Þorláksskóga. Samningurinn er á milli Sveitarfélagsins Ölfuss, Landgræðslunnar og Skógræktarinnar. Uppgræðsla á þessu svæði er ein af forsendum byggðar í Þorlákshöfn. Mikið starf hefur verið unnið af Landgræðslu ríkisins við að stöðva sandfok og jarðvegseyðingu á Hafnarsandi. Áhersla hefur verið lögð á að vernda byggð og vegi fyrir sandfokinu. Síðustu áratugi hafa Sveitarfélagið Ölfus, skógræktarfélög og einkaaðilar unnið við krefjandi aðstæður að skógrækt á svæðinu. Árangur skógræktartilrauna er með ágætum og er ljóst að vel er hægt að rækta upp gróskumikinn skóg á svæðinu. Mikill áhugi er meðal heimafólks í Ölfusi, Landgræðslunnar og Skógræktarinnar að vinna saman að skógrækt á Hafnarsandi.
Sveitarfélagið Ölfus, Landgræðslan og Skógræktin munu í framhaldinu leita leiða til fjármögnunar, bæði í gegnum fjárveitingar ríkisins og framlög félagasamtaka, fyrirtækja og einkaaðila.
Í samningum kemur fram að aðilar eru sammála um að vinna að nauðsynlegri undirbúningsvinnu og skipulagningu fyrir framkvæmd Þorláksskóga.

Markmið verkefnisins er að:
• græða upp land og rækta skóga til að verjast náttúruvá, vernda byggð og til fjölbreyttra nytja s.s. útivistar.
• vinna að stefnu íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum í samræmi við Parísarsamkomulagið.
• vinna að stefnu um endurheimt vistkerfa til að auka líffræðilega fjölbreytni.
• vinna að framkvæmd laga um skógrækt og laga um landgræðslu.
• leita eftir samstarfi við fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga um fjármögnun og vinnuframlag.
• styðja við atvinnuþróun og eflingu byggðar á svæðinu.

Aðilar samningsins skipa verkefnisstjórn sem í sitja tveir fulltrúar Landgræðslunnar, tveir fulltrúar Skógræktarinnar og tveir fulltrúar Sveitarfélagsins Ölfuss og verður annar þeirra formaður verkefnisstjórnar.

Til þess að halda utan um undirbúning næstu mánaða verður ráðinn verkefnisstjóri og munu ríkisstofnanir skipta með sér kostnaði við störf hans. Stefnt er að því að ljúka samningagerð og fjármögnun verkefnisins fyrir 1. júní 2017.

Afmörkun Þorláksskóga

 

 

 

 

 

Sjá hér myndband sem var tekið þegar skrifað var undir saminginn.

Undir samninginn rituðu Árni Bragason, landgræðslustjóri, Aðalsteinn Sigurgeirsson, staðgengill skógræktarstjóra og Gunnsteinn Ómarsson, bæjarstjóri. Meðfylgjandi mynd var tekin þegar þeir höfðu lokið undirritun. F.v. Aðalsteinn, Gunnsteinn og Árni.

Meðfylgjandi mynd var tekin þegar búið var að skrifa undir samninginn.  F.v. Aðalsteinn Sigurgeirsson, staðgengill skógræktarstjóra, Gunnsteinn Ómarsson bæjarstjóri  og Árni Bragason, landgræðslustjóri.

 

Skip to content