Select Page

Hver er tilgangurinn með landgræðslu? Ef landgræðslulögin frá 1965 eru lesin þá kemur greinilega fram að tilgangurinn með starfi Landgræðslunnar er að búa til nytjaland; beitarland fyrir búfé. Með tímanum höfum við hins vegar séð að hlutirnir eru ekki svo einfaldir að Landgræðslan komi bara með fræ og áburð og eftir nokkur ár þá sé komið nýtingarhæft land. Reykir á Skeiðum og Skógey í Hornafirði eru góð dæmi en þau eru auðvitað fleiri.

Meðfylgjandi myndir af Jóhanni Þórssyni, vistfræðingi, voru teknar í landi Reykja á Skeiðum en þar hófst uppgræðsla í byrjun 20. aldar og fljótlega bar uppgræðslan góðan árangur og landið því afhent landeigendum á ný í framhaldi. Landið var beitt eins og venja var og landinu hnignaði uns allt fór í sama far. Friðunaraðgerðir hófust aftur upp úr 1990 og nú má segja að landið sé komið í gott ástand á ný. En hvað mundi gerast ef beit hæfist á nýjan leik? Þolir landið beit? Hvers vegna fer land, sem þó var komið í jafn gott horf og raun bar vitni eins og á Reykjum, jafn illa og raun ber vitni.

Undir örþunnri gróðurhulu er sandur
„Of sjaldan velta menn fyrir sér eiginleikum jarðvegsins sem eru afar mismunandi. Frjósöm mold er forsenda þess að við séum með beitarþolið vistkerfi. Það er ekki allt sem sýnist þegar horft er yfir landið sem var grætt upp á Reykjum. Það lítur vissulega vel út en undir örþunnri gróðurhulu er sandur og hann á lítið skylt við frjósama mold.

Sendinn jarðvegur er mjög erfiður þegar kemur að uppgræðslu. Sandurinn er laus í sér og rofgjarn og hann þolir því ekki mikið rask. Auk þess er sandurinn ófrjósamur og þess vegna á gróður á slíkum svæðum erfitt uppdráttar. Þess vegna þarf að huga sérlega vel að landnýtingu á slíkum svæðum. Vanþekking á eðli jarðvegarins var ástæða þess að uppgræðslan mistókst á Reykjum á sínum tíma. Landið þolir hvorki beit né ágang fyrr en eftir langan, mjög langan tíma.

Biðlund er eina svarið
En auðvitað er sendinn jarðvegur ekki ónýtingarhæft land. Landið í kringum Gunnarsholt á Rangárvöllum er sendið og þar hafa verið ræktaðir upp miklir akrar á tiltölulega skömmum tíma sem gefa vel af sér. Munurinn þar og á t.d. úthaga eins og Reykjum er að í Gunnarsholti er sífellt verið að bæta næringarefnum inn í kerfið með áburði. Þannig styttum við okkur leið í endurheimtarstarfinu. En þetta er kostnaðarsamt og ef landið gefur lítið af sér á hektara eins og beitiland gerir gjarna þá er þetta ekki fær leið. Í tilfelli Reykja – og það sama gildir um mörg önnur landsvæði þar sem jarðvegur er svipaður – er biðlund og hvíld eina svarið.

Sinustigið – skortur á köfnunarefni
Oft er það svo að fólki finnst lítið vera að gerast á landgræðslusvæðum. Þetta á gjarnan við ef um að ræða hrjóstug svæði sem hafa fengið hefðbundinn áburðarskammt. Hins vegar er þetta ekki alskostar rétt. Þó hágróður, grös og blómjurtir virðist eiga erfitt uppdráttar þá er þarna mikið líf, en það það dylst okkur því það er smágert. Þörungar mosar og fléttur ásamt örverum eru að mynda jarðvegsþekju, skán, og grös og blómplöntur mynda fræ og fjölga sér. Ég hef stundum kallað þetta sinustigið. Þetta er upphafsástand landgræðslusvæða þegar köfnunarefni fer að skorta. Í rauninni er þarna komið að ákveðnum þröskuldi sem við eigum ekki svo gott með að ráða við nema með því að bíða, því með tímanum binda þessar lífverur, sem okkur finnast kannski lítilfjörlegar, köfnunarefni sem verður smám saman til reiðu fyrir annan gróður. Það er þegar því stigi er náð sem við förum svo að sjá verulegar breytingar. En þetta getur tekið langan tíma, og það er óhætt að tala um áratugi. Við getum auðvitað stytt okkur leið og dreift áburði en það er dýrt og óraunhæft miðað við umfang þessara svæða.

Svipað ástand og eftir ísöld
Ef við horfum til baka þá má gera ráð fyrir að við lok Ísaldar hafi land verið nær gróðurlaust. Ástandið var eitthvað í líkingu við mörg örfoka landgræðslusvæði eins og við þekkjum þau nú um stundir. Miðað við frjókornagreiningar þá ttók það um 1000 ár frá lokum Ísaldar þangað til við fórum að sjá gras- og birkifrjókorn um nánast allt land. Það hefur semsagt tekið um 1000 ár fyrir gróður að nema land. Þetta er raunverulegi tímaskalinn sem við erum að horfa á og honum getum við ekki breytt nema með því að auka framboð t.d. köfnunarefnis eða búið til sérstakar fræuppsprettur með uppgræðslum inni á þessum svæðum. Köfnunarefninu getum við miðlað t.d. með áburði eða með lúpínu – en þar þurfum við í upphafi endinn að skoða því við að stýra framvindu inn á ákveðnar brautir með þessum inngripum okkar sem við köllum landgræðslu og það er ekki víst að það sem til verður sé það sem við höfðum í huga í upphafi,” sagði Jóhann Þórsson, vistfræðingur og starfsmaður Landgræðslunnar.

Skip to content