Select Page

6.9.2017 / Fyrir skömmu rituðu þeir Árni Bragason, landgræðslustjóri og Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri, bréf til Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, landbúnaðarráðherra um yfirvofandi samdrátt í sauðfjárframleiðslu og mögulega aðkomu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar til að skapa bændum ný atvinnutækifæri. Bréf þeirra Árna og Þrastar bar yfirskriftina „Tillögur Landgræðslu ríkisins og Skógræktarinnar vegna aðgerða til að mæta vanda sauðfjárræktarinnar.“

Bréfið er svohljóðandi:

Forsendur
Boðaður hefur verið allt að 20% niðurskurður í sauðfjárrækt til að ná tökum á framleiðslunni og laga greinina að innanlandsmarkaði.

Með því að efla þau samstarfsverkefni sem þessar stofnanir ríkisins eru að vinna að með bændum er unnt að skapa ný atvinnutækifæri fyrir þá bændur sem hverfa frá sauðfjárrækt eða draga verulega úr henni. Þannig má auka líkur á að þeir geti búið áfram á jörðum sínum, bætt þær og þar með aukið framtíðarverðmæti þeirra og um leið treyst byggð í strjálbýlum sveitum. Bændur eiga vélakost sem þarf til landbótastarfa og margir hafa þá þekkingu sem til þarf. Landgræðsla ríkisins og Skógræktin reka héraðssetur í öllum landshlutum sem geta sinnt leiðbeiningum, áætlanagerð og eftirfylgni með slíkum verkefnum. Stofnanirnar hafa um áratuga skeið átt í farsælu samstarfi við bændur um uppgræðslu lands í verkefninu Bændur græða landið og Landshlutaverkefnunum í skógrækt (nú Skógrækt á bújörðum).

Með auknum framlögum til þessara verkefna mun draga úr hættu á því að samfélagslegur vandi skapist vegna brottflutnings úr sveitum og þau munu stuðla að því að halda landinu í byggð auk fjölþætts umhverfislegs ávinnings. Jafnframt væri tryggt að fjármagn sem væri ráðstafað til búháttabreytinga myndi nýtast til mikilvægra umhverfisverkefna í heimahéruðum. Þau verkefni sem gæti verið um að ræða tengjast fjórum meginþemum:

• Uppgræðsla lands. Samkvæmt gögnum sem koma fram í landbótaáætlunum sauðfjárbænda ganga um 10% fjárstofnsins á afréttum þar sem þörf er á úrbótum á ástandi lands og/eða landnýtingu. Þessir afréttir eru að mestu leyti á gosbeltinu. Landgræðslan er í samstarfi við bændur um uppgræðslu á þessum svæðum. Fjölga mætti þátttakendum í þessu samstarfi og auka verulega umfang slíkra uppgræðsluverkefna. Þá er víða hægt að bæta í uppgræðslu á heimalöndum í gegn um verkefnið Bændur græða landið. Þátttakendum yrði greitt fyrir vinnuframlag á svipaðan hátt og þátttakendum í Skógrækt á bújörðum. Verkefnið mun stuðla að því að draga úr vergri (nettó) losun koltvísýrings frá Íslandi sem nemur 2-2,5 tonnum af CO2 á hektara á ári.

• Endurheimt votlendis. Milli áranna 1960 og 1980 var mikið ræst fram af votlendi í þeim tilgangi að rækta akra og tún sem og að bæta beitarlönd. Verulegur hluti af því landi sem var ræst fram hefur ekki verið nýtt í þeim tilgangi enn sem komið er. Þarna er því svigrúm til þess að endurheimta mikið af votlendi. Bændur eru hér í lykilstöðu þar sem þeir eru að langmestu leyti umráðamenn þess lands sem um ræðir. Með þátttöku í verkefninu gætu þeir fengið greitt fyrir vinnu við endurheimt votlendis. Með þessum hluta verkefnisins má m.a. draga úr losun CO2 og endurreisa vistkerfi sem eru mikilvæg fyrir fjölda lífvera. Mikill fjöldi bænda hefur möguleika til þátttöku í þessum hluta verkefnisins.

• Endurheimt birkiskóga og önnur endurhæfing lands með skóggræðslu. Ísland hefur frá landnámi tapað langstærstum hluta birkiskóganna, sem áður þöktu 25-40% af yfirboði Íslands. Í kjölfar eyðingar skóganna hófst sú gróður- og jarðvegseyðing sem enn sér ekki fyrir endann á. Þessi hluti verkefnisins myndi snúa að endurheimt þeirra þar sem bændur myndu taka fyrir hluta af sínu landi, friða það fyrir beit og rækta nýja landbótaskóga með áherslu á birki og þátttöku í Skógrækt á bújörðum. Einnig væri um að ræða endurheimt skóga á stórum rofsvæðum, sbr. Hekluskóga, þar sem bændum yrði boðin vinna, t.d. sem verktakar, við friðun, gróðursetningu, áburðardreifingu o.fl. Til langs tíma myndi framleiðni landsins aukast og með þessu væri einnig verið að endurreisa vistkerfi sem eru mikilvæg fyrir fjölda lífvera. Með birkiskógrækt má einnig binda 4-6 tonn CO2 árlega í trjágróðri og jarðvegi.

• Skógrækt á bújörðum. Reynsla undanfarna öld hefur staðfest að skógrækt til timburframleiðslu er bæði vel möguleg og hagkvæm í flestum landshlutum og á flestum landgerðum. Samfara ræktun nytjaskóga fer fram kolefnisbinding sem numið getur allt að 10 tonnum CO2 á hektara og ári að meðaltali hjá hraðvöxnum trjátegundum. Að meðaltali nemur árleg binding CO2 í ræktuðum skógum Íslands nú 7,7 tonnum á hektara en aðeins þyrfti slíkur skógur að vaxa á tæpum 7% landsins til að binda alla losun Íslendinga. Margir sauðfjárbændur taka þátt í verkefninu Skógrækt á bújörðum (áður Landshlutaverkefnin í skógrækt) og áhugi meðal bænda hefur aukist nýverið. Um 20 bændur í Vestur Húnavatnssýslu sýndu áhuga á að taka þátt í beitarskógaverkefni á yfirstandandi ári en fjármagn nægði aðeins til að hefja framkvæmdir á fjórum jörðum. Fyrir því er einnig tæplega 30 ára reynsla á Héraði, þar sem skógrækt var liður í aðgerðum þegar allt fé var skorið vegna riðu. Enn er blómleg byggð á Héraði og margir bændur farnir að nýta skógana sína. Fjölga mætti þátttökujörðum í Skógrækt á bújörðum og auka hraða framkvæmda með auknum fjárveitingum.

Landgræðsla ríkisins og Skógræktin vona að ofangreindar tillögur muni í samspili við aðrar aðgerðir draga úr hættu á veikingu byggðar í kjölfar samdráttar í framleiðslu sauðfjárafurða. … „

Skip to content