Select Page

10.9.2018 / Í morgun hófst í Reykjavík alþjóðleg ráðstefna undir heitinu: Endurheimt vistkerfa á tímum loftslagsbreytinga. (www.sere2018.org) Um 400 gestir frá 50 þjóðríkjum sækja ráðstefnuna sem  Landgræðsla ríkisins, Landbúnaðarháskóli Íslands, Landvernd og Landgræðsluskóli Háskóla Sþ halda í samstarfi við evrópsk vistheimtarsamtök. Ráðstefnan er  haldin á Hótel Hilton Nordica í Reykjavík. Henni lýkur síðdegis nk. fimmtudag. Meðfylgjandi mynd var tekin þegar Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra ávarpaði samkomuna.

Endurheimt vistkerfa verður æ mikilvægari til að takast á við loftslagsbreytingar enda veldur gróður- og jarðvegseyðing því að gríðarlegt magn af koltvísýringi tapast út í andrúmsloftið.  Það er ein höfuðorsök loftslagsbreytinga. Jafnframt hafa vistkerfi jarðar tapað að verulegu leyti getu til að binda og geyma kolefni í jarðvegi og gróðri – og getu til að miðla og geyma vatn, framleiða lífmassa og vernda lífbreytileika gróðurs og jarðvegslífs.

Á Íslandi hefur orðið meiri hnignun og hrun vistkerfa en í flestum öðrum löndum Evrópu og þótt víðar sé leitað.  Að sama skapi hafa Íslendingar staðið lengi að fjölbreyttum landgræðsluverkefnum, skógrækt og vistheimt og hafa því margháttaða reynslu.

Þetta verður viðfangsefni og umfjöllunarefni þeirra fjölmörgu vísindamanna og annarra sem ráðstefnuna sækja. Þar gefst tækifæri til að ræða þessi mikilvægu mál við einhverja af færustu vísindamanna heimsins á sviði endurheimtar vistkerfa.

Í tengslum við ráðstefnuna verður efnt til „Loftslagstorgs“ (Climate forum) nk. fimmtudag kl. 10:30-12:30 á Hótel Hilton Nordica, en þar gefst fyrirtækjum, samtökum og stofnunum kostur á að greina frá loftslagsmarkmiðum sínum og hvernig þeim hefur gengið að fylgja þeim eftir.

Skip to content