26. nóvember 2014 | Hjálmar R. Bárðarson, f.v. siglingamálastjóri, sem lést í apríl árið 2009 arfleiddi 6 stofnanir og félagasamtök að öllum eigum sínum. Erfingjarnir eru: Ljósmyndadeild Þjóðminjasafns Íslands, Sjóminjasafnið Víkin í Reykjavík, Byggðasafn Vestfjarða og Fuglaverndarfélag Íslands, sem hvert um sig fékk 10% arfshlut og svo Landgræðsla ríkisins og Landgræðslusjóður sem hvort um sig fékk 30%.
Í erfðaskránni koma fram óskir hins látna um ráðstöfun hvers aðila á arfinum. Landgræðslusjóður skyldi verja sínum arfshlut til landgræðsluskógræktar, t.d þar sem lúpína hefur gert land vænlegt til skógræktar. Landgræðsla ríkisins skyldi verja sínum hlut til aukinnar fræræktar lúpínu og notkun hennar til uppgræðslu og til að gera land vænlegt til frekari ræktunar nytjagróðurs.
Landgræðslusjóður og Landgræðsla ríkisins ákváðu á sínum tíma að verja hluta arfsins til stofnunar sjóðs sem hefur að markmiði að styrkja rannsóknaverkefni í landgræðslu og skógrækt, með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu. Sjóðurinn fær í stofnfé 20 millj. króna frá hvorum eignaraðila og á að starfa í 10 ár, skv. ákvæði í skipulagsskrá. Styrkþegar geta verið einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki og opinberir aðilar. Sjóðurinn fékk nafnið Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson.
Stjórn sjóðsins skipa þrír einstaklingar og er einn tilnefndur af Skógræktarfélagi Íslands, annar af Landgræðslu ríkisins og hinn þriðji af Skógrækt ríkisins. Eftirtaldir aðilar eiga sæti í stjórn: Guðbrandur Brynjúlfsson frá Skógræktarfélagi Íslands, sem er formaður sjóðsstjórnar, Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri og Jón Loftsson skógræktarstjóri.
Skipulagsskrá sjóðsins, og reglur um umsóknir og úthlutanir styrkja úr sjóðnum, er hægt að nálgast á heimasíðum Landgræðslu ríkisins, www.land.is , Skógræktar ríkisins, www.skogur.is og Skógræktarfélags Íslands, www.skog.is
Umsóknarfrestur vegna úthlutunar árið 2015 er til 10. janúar. Umsókn er neðst á umsóknarsíðu Landgræðslunnar. Smella hér.
Nánari upplýsingar veita undirritaðir:
Fyrir hönd minningarsjóðsins:
Guðbrandur Brynjúlfsson.
Sveinn Runólfsson, sveinn@frettir.land.is
Jón Loftsson.