17. september 2015 | Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, flutti ávarp í hátíðarathöfn sem haldin var í tilefni Dags íslenskrar náttúru í gær, 16. september. Dagur íslenskrar náttúru var að þessu sinni haldinn hátíðlegur í fimmta sinn. Í ræðu sinni sagði Sigrún að fátt væri betra en að finna fyrir því „að maður leggi sitt af mörkum til að hlúa að jörðinni og landinu sem við eigum öll saman. Það er enda siðferðisleg skylda okkar allra að ganga þannig um landið að komandi kynslóðir taki við því í jafngóðu eða betra ásigkomulagi en það var í þegar við fengum það til varðveislu. Undirstaða alls gróðurs og lífs er að finna í því sem í daglegu tali nefnist moldin og Steinn Steinarr nefndi „Drottningu lífsins, móður og lífgjafa allra lifandi”. Jarðvegur á Íslandi er um margt einstakur og breytilegur. Það má til sanns vegar færa að moldin líkt og maðurinn mótast af umhverfi og atlæti.
Uppgræðsla hér á landi er saga um ótrúlega elju og eldmóð þeirra sem hafa starfað að vernd jarðvegs og gróðurs í meira en heila öld. Að þessu hafa bændur og vísindamenn unnið af mikilli natni og nákvæmni, leitað leiða til að hefta sandfok, lagað og grætt til að nýta landið á sjálfbæran og vistvænan hátt og skapað verðmæti í þágu samfélagsins alls. Það þekkir enginn betur landið en sá sem yrkir jörðina samkvæmt bestu mögulegu þekkingu og varðveitir auðlindina fyrir komandi kynslóðir,” sagði Sigrún.
Síðar í ræðu sinni sagði ráðherra að íslensk náttúra væri „sá jarðvegur sem við Íslendingar erum sprottnir af og rétt eins og náttúran á sér ólíkar hliðar höfum við ólíkar hugmyndir um hvað ber af í þessu margbrotna sköpunarverki.
Dagur íslenskrar náttúru gefur okkur gott tækifæri til að fagna fjölbreytileika landsins og benda á hvað það er sem hvert og eitt okkar kann mest og best að meta í náttúrunni. Þar gegna fjölmiðlar einnig lykilhlutverki og hér á eftir afhendi ég að venju Fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins aðila sem hefur haldið íslenskri náttúru á lofti í umfjöllun sinni.
Íslensk náttúra hefur reyndar lag á að koma sér í fjölmiðla því reglulega minnir hún á sig með því að ræskja sig hressilega, til dæmis með jarðhræringum, ofsaveðrum, ofanflóðum, skriðuföllum og jökulhlaupum. Þá er ómetanlegt að hafa vaska sveit vaktmanna sem fylgjast dag og nótt með því sem þessi duttlungafulla náttúra tekur upp á hverju sinni.
Þannig er íslensk náttúra alltumlykjandi í starfi Veðurstofu Íslands og því vel við hæfi að fagna henni hér. Og ekki þykir mér verra að þessi lykilstofnun íslenskrar náttúru sé svo að segja í bakgarðinum hjá sjálfri mér – í öllu falli er traustvekjandi að sjá hana út um stofugluggann þegar Kári geisar eða jörð spúir eldi og brennisteini.
Að öllu gamni slepptu þá er íslensk náttúra svo sannarlega órjúfanlegur hluti okkar daglega lífs og lætur engan sem býr í þessu landi ósnortinn. Það er mín von að Dagur íslenskrar náttúru verði okkur öllum gleðiríkur og jákvæð áminning um þann fjölbreytta fjársjóð sem náttúra landsins okkar býr yfir. Um leið brýni hann okkur til góðra verka í að vernda hana og varðveita fyrir komandi kynslóðir,” sagði Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra.
í tilefni af Degi íslenskrar náttúru veitti Sigrún þáttaseríunni „Lífríkið í sjónum við Ísland” eftir þá Erlend Bogason og Pétur Halldórsson fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Við sama tækifæri veitti hún Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti en hana hlutu annars vegar hjónin Björn Halldórsson og Elisabeth Hauge á Valþjófsstöðum í Öxarfirði og hins vegar Völundur Jóhannesson á Egilsstöðum.