Select Page

14. janúar 2016. Landbrot af völdum sjávar heldur stöðugt áfram í fjörunni fyrir framan Vík. Það styttist því stöðugt í að sjórinn verði búinn að brjóta niður sandfoksvarnir Landgræðslunnar og Fjörulallanna í Vík. En stofnunin hefur á undanförnum áratugum unnið að því að draga úr sandfoki inn í þéttbýlið í Vík í Mýrdal og á síðari árum hafa eldri borgarar svonefndir Fjörulallar unnið þar ómetanlegt starf við uppgræðslu og fegrun svæðisins.

Tímamóta áfangi í sjóvörnum náðist þegar Siglingastofnun reisti svo kallaðan sandfangara árið 2010 og tók þá fjaran að lengjast vestan við hann. Fjörulallarnir græddu viðbótarlandið jafnóðum upp til að hamla frekari sandfoki þaðan inn yfir byggðina.
Í ofsaveðrum í lok sl. árs gekk sjórinn langt inn á landið austan við sandfangarann og alveg að Hringveginum og bar með sér mikinn sand.
Bilið á milli fjöruborðs og byggðar er orðið það lítið að mjög lítið svigrúm er til staðar fyrir varnaraðgerðir til að draga úr hættu á sandfoki.
Með sömu þróun landbrotsins hverfa þessar uppgræðsluaðgerðir framan við iðnaðarsvæðið í sjóinn innan tíðar og þorpið verður berskjaldað fyrir sandfoki frá fjörunni.

Skip to content