Select Page
1.11.2018 / Fyrr á árinu fékk Landgræðsla ríkisins styrk úr Samfélagssjóði Alcoa (Alcoa Foundation) til að endurheimta votlendi í Fjarðarbyggð og til að fræða heimamenn um votlendismál; sérstaklega nemendur í skólum. Í haust hefur Guðrún Schmidt, fræðslufulltrúi Landgræðslunnar á Egilsstöðum, verið í samstarfi við 7. bekk á Eskifirði, 7. bekk á Reyðarfirði og 5. og 6. bekk á Fáskrúðsfirði um slíka fræðslu.

Fræðslan var þrískipt þannig að fyrst var unnið úti en þá tók við verkefnavinna og leikir og tilraunir í skólastofu.

Útivinnan fór fram í landi Hólma á Reyðarfirði. Þar var lögð áhersla á að nemendur uppgötvi sjálfir mismunandi einkenni, hlutverk og nýtingarmöguleika votlendis, samanborið við mólendi og graslendi. Sérstaklega var mikilvægt að skoða nánar jarðvegsgerðir þessara þriggja mismunandi gróðurlenda, handfjatla þær, mæla jarðvegsdýpt og síðan vatnshæðina í votlendinu. Spjallað var um hvaða máli votlendið skiptir, um framræslu, kolefnishringrás, loftslagsmál og endurheimt votlendis.

Til að auka og dýpka þekkinguna tóku nemendur verkefni með sér í skólann. Annað hvort voru nemendur að vinna hugarkort eða röksemdarkort um votlendi.

Nemendurnir kynntu verkefnin í kennslutíma þegar Guðrún kom til þeirra í skólann. Eftir það var farið í „votlendis-bingó“ og gerð tilraun sem sýnir eiginleika malar- og sandkennds jarðvegs, moldar og votlendisjarðvegs við miðlun og síun á vatni.

Fram kom hjá Guðrúnu að eitt af því mikilvægasta sem við öll þurfum að vera meira meðvituð um er það hvernig einstök vistkerfi, í þessu tilfelli votlendi, tengist okkar daglega lífi. Til þess að ná þessa tengingu var farið í leik um vistspor og sjálfbæra þróun (sjá hér). Á áhrifamikinn hátt geta nemendur upplifað í gegnum þennan leik muninn á stærð vistspors og tækifærum í ríku og fátæku löndum, ósanngirni og ójafnrétti og hvernig stórt vistspor hefur áhrif á hnignun vistkerfa, m.a. votlendis. Þessi leikur var síðan uppspretta að umræðum en nemendurnir komu fram með fjölmargar og góðar hugmyndir sem miðuðu að því að minnka vistspor Íslendinga

.

Nemendur 7. bekkjar Eskifjarðarskóla að velta fyrir sér eiginleikum og hlutverkum votlendis.

Vatnshæðin í votlendinu mæld af nemendum 5. og 6. bekkjar grunnskólans á Fáskrúðsfirði.

Hér má sjá afrakstur vinnu nemenda. Þetta er „röksemdarkort.“

Tilraun sem sýnir eiginleika mismunandi jarðvegs við miðlun og síun á vatni. Þetta var gert í skólastofu grunnskólans á Fáskrúðsfirði.

 

 

 

 

 

 

Nemendur 7. bekkjar grunnskólans á Reyðarfirði kynna röksemdarkortið sitt.

Nemendur grunnskólans á Fáskrúðsfirði einbeittir og fjörugir í leiknum um vistspor og sjálfbæra þróun.

Skip to content