Select Page

30.11.2017 / Landgræðsluverðlaunin 2017 voru afhent  á opnum fundi um landgræðslumál í Skúlagarði í Kelduhverfi fyrr í vikunni.  Verðlaunin voru veitt ábúendum  á Snartastöðum í Núpasveit og Laxárdal í Þistilfirði.  Landgræðsluverðlaunin eru veitt árlega einstaklingum og félagasamtökum sem hafa unnið að landgræðslu og landbótum.  Verðlaunagripirnir, Fjöregg Landgræðslunnar, eru unnir af Eik listiðju. Björn H. Barkarson afhenti verðlaunin fyrir hönd umhverfis- og auðlindaráðherra.

Snartarstaðir
Þau Helgi Árnason og Sigurlína J. Jóhannesdóttir hófu búskap Á Snartarstaðajörðinni í Núpasveit árið 1978 og búa þar í dag með um 500 fjár og 30-40 hross. Þau eru mikið áhugafólk um landgræðslu og hafa beitt hinum ýmsu aðferðum til slíkra starfa.

Þau Helgi og Sigurlína hafa verið virkir þátttakendur í verkefninu „Bændur græða landið“ síðan 1995 auk þess sem þau hafa notað lífrænan áburð og moð á mela á landareigninni. Einnig eru þá þátttakendur í gæðastýringu í sauðfjárrækt. Stunduð hefur verið skógrækt á Snartarstöðum síðan 2002, og hefur trjám nú verið plantað í um það bil 100  hektara, að mestu leiti lerki.

Árið 2004 gerðu Helgi og Sigurlína samning við Landgræðsluna um friðun og uppgræðslu Leirhafnarfjallgarðs og nærliggjandi lands í landi Snartarstaða. Var þá girt tæplega 20 km girðing og er það samstarfsverkefni Landgræðslunnar og þeirra hjóna að halda henni við og stunda landgræðslu innan hennar. Þarna hefur mikið og gott starf verið unnið á þessum tíma m.a. með notkun lúpínu og melgresis sem jafnvel hefur verið handdreift í mestu brattana.

Bændur í Laxárdal
Á jörðinni Laxárdal í Þistilfirði búa Eggert Stefánsson og Hjördís Matthilde Henriksen með 640 fjár, 18 hross og 9 nautgripi, en þau tóku við búskap af foreldrum Eggerts, Stefáni Eggertssyni og Hólmfríði Jóhannesdóttur, árið 2008.

Sumarið 1988 hentaði illa til heyskapar og skemmdist stór hluti af uppskeru þess sumars. Það markaði að einhverju leiti upphaf uppgræðslustarfa á Laxárdalsjörðinni þegar þessu heyi var dreift á rofmela á landareigninni. Þau Stefán og Hólmfríður, þáverandi bændur í Laxárdal, gerðust svo þátttakendur í verkefninu „Bændur græða landið“ strax upp úr 1990 og þau Eggert og Hjördís heldu áfram störfum innan verkefnisins eftir að þau tóku við búi. ´

Á þessum 25 árum hefur umtalsvert magn af tilbúnum og lífrænum áburði ratað á rofmelana í Laxárdal, en áætla má að það svæði sem farið hefur verið yfir í gegnum „Bændur græða landið“ sé að nálgast 100 hektara.

Bændur í Laxárdal eru þátttakendur í gæðastýringu í sauðfjárrækt og Eggert hefur einnig verið virkur meðlimur í Landgræðslufélagi Svalbarðshrepps allt frá stofnun þess árið 2003 og hefur nú gegnt formannsstöðu félagsins frá 2013, en sá félagsskapur hefur stundað landgræðslustörf á afréttarlöndum í Þistilfirði í gegnum Landbótasjóð Landgræðslunnar.

Sjá skrá yfir þá aðila sem hafa hlotið landgræðsluverðlaunin

Verðlaunahafar ásamt starfsmönnum Landgræðslunnar. F.v. Árni  Bragason landgræðslustjóri, Þór Kárason héraðsfulltrúi, Stefán Eggertsson og Eggert Stefánsson, Laxárdal í Þistilfirði, Helgi Árnason, Snartastöðum, Núpasveit, Daði Lange Friðriksson  héraðsfulltrúi, Sigurlína J. Jóhannesdóttir, Snartastöðum, Björn H. Barkarson umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og Sigríður Þorvaldsdóttir héraðsfulltrúi.

Skip to content